Körfubolti

Abby með sigurkörfuna 0,8 sekúndum fyrir leiks­lok

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Abby Beeman var frábær í Síkinu í kvöld og hetjan í leikslok.
Abby Beeman var frábær í Síkinu í kvöld og hetjan í leikslok. Vísir/Vilhelm

Grindavíkurkonur héldu áfram sigurgöngu sinni í kvennakörfunni með því að sækja sigur á Sauðárkrók í Bónusdeild kvenna í kvöld.

Grindavíkurliðið þurfti að hafa mikið fyrir þriðja deildarsigri sínum í röð en liðið vann að lokum þriggja stiga sigur, 87-84.

Abby Beeman kórónaði frábæran leik með því að skora sigurkörfuna þegar hún setti niður þrist úr erfiðri stöðu 0,8 sekúndum fyrir leikslok.

Beeman var mjög öflug hjá Grindavík með 27 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar en Farhiya Abdi minnti líka á sig með 21 stig og Ólöf Rún Óladóttir var einnig frábær með 20 stig.

Hin spænska Marta Hermida átti enn einn stórleikinn fyrir Stólana en 31 stig frá henni voru ekki nóg. Madison Anne Sutton gældi við þrefalda tvennu með 13 stigum, 11 fráköstum og 9 stoðsendingum. Oceane Kounkou skoraði 14 stig.

Grindavík komst fyrir vikið upp í toppsætið í deildinni. Liðið er með 22 stig eins og Njarðvík en er ofar þökk sé innbyrðis leikjum.

Tindastóll komst í undanúrslit bikarsins á dögunum en þar mæta þær einmitt Grindavík í Smáranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×