Handbolti

Donni þarf líka að fara í að­gerð

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kristján Örn Kristjánsson, Donni, í leik með íslenska landsliðinu. 
Kristján Örn Kristjánsson, Donni, í leik með íslenska landsliðinu.  Vísir/Vilhelm

Kristján Örn Kristjánsson, sem datt út úr íslenska landsliðshópnum rétt fyrir EM í handbolta, þarf að gangast undir aðgerð vegna kviðslits.

Donni átti að fara með strákunum okkar á mótið en þegar liðið kom saman til æfinga í byrjun janúar varð honum ljóst að meiðslin væru alvarlegri en hann taldi upphaflega.

Bakvörðurinn er kviðslitinn en hefur spilað í gegnum sársaukann á þessu tímabili.

Oft er hægt að meðhöndla kviðslit með hvíld og endurhæfingu, en félagslið hans í Danmörku, Skanderborg, staðfesti að aðgerð væri nauðsynleg.

„Við reyndum að meðhöndla sársaukann og það hefur virkað á löngum köflum, en að þessu sinni teljum við aðgerð vera besta lausnina til að leysa vandann“ sagði í tilkynningu félagsins

Ekki kemur fram hversu lengi Donni verður frá en reikna má með að minnsta kosti 1-2 mánaða endurhæfingu eftir svona aðgerð.

Donni var sá fyrsti sem datt út úr íslenska landsliðshópnum en Elvar Örn Jónsson þurfti svo að draga sig úr hópnum í gær, eftir að hafa handarbrotnað í leiknum gegn Ungverjalandi í fyrradag. Elvar er á leið hingað til lands í aðgerð vegna brotsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×