Innlent

Öllum sleppt úr haldi og rann­sókn á við­kvæmu stigi

Tómas Arnar Þorláksson og Kjartan Kjartansson skrifa
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari. vísir/vilhelm

Fimm starfsmönnum og stjórnarmönnum Vélfags sem voru handteknir í aðgerðum héraðssaksóknara í gær hefur verið sleppt úr haldi lögreglu. Aðgerðirnar stóðu yfir í nokkrar klukkustundir. Húsleit fór fram á Akureyri og í Reykjavík á sama tíma þar sem lagt var hald á töluvert magn af rafrænum gögnum.  

Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við fréttastofu. 

Greint var frá því í gær að fimm stjórnar- og starfsmenn Vélfags hafi verið handteknir í aðgerðum héraðssaksóknara í gær þar sem húsleit fór fram í höfuðstöðvum fyrirtækisins á Akureyri og á fleiri stöðum í Reykjavík á sama tíma. Héraðssaksóknari staðfestir fjölda þeirra sem voru handteknir og segir að yfirheyrslu og skýrslutöku yfir þeim hafi lokið í gærkvöldi og þeim þar af leiðandi sleppt úr haldi. Ekki taldist ástæða til að krefjast gæsluvarðhalds.

Alfreð Tulinius, stjórnarformaður Vélfags, er meðal þeirra sem voru handteknir í gær. Ólöf Ýr Lárusdóttir, minnihlutaeigandi og stjórnarmaður, var einnig kölluð í yfirheyrslu í gær. Hún og eiginmaður hennar Bjarmi A. Sigurgarðsson stofnuðu Vélfag á sínum tíma og eiga um átján prósenta hlut í fyrirtækinu. Pétur Örn Sverrisson, lögmaður Ólafar, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu.

Ólafur Þór staðfestir að rannsóknin sé vegna gruns um brot fyrirtækisins gegn viðskiptaþvingunum vegna meintra tengsla eiganda Vélfags við rússneska skuggaflotann. 

Arion banki frysti fjármuni Vélfags í sumar á grundvelli þvingunaraðgerða Evrópusambandsins vegna tilrauna Rússlands til þess að grafa undan stöðugleika í Evrópu. Ivan Kaufmann, meirihlutaeigandi Vélfags, er talinn leppur eigenda rússnesks útgerðarfélags sem tengist svonefndum skuggaflota Rússa. Félagið átti áður meirihluta í Vélfagi.

Greint var frá því á Vísi í gær að samkvæmt heimildum hafi starfsmenn fyrirtækisins unnið að því að á bak við tjöldin að stofna nýtt félag til að halda starfseminni áfram. Til hafi staðið að selja lager og tæki fyrirtækisins til annars félags fyrir slikk. Héraðssaksóknari staðfesti ekki hvort það væri tilefni aðgerða gærdagsins. 

Hann tekur fram að lítið sé hægt að segja um málið þar sem rannsóknin sé á viðkvæmu stigi. Rannsókninni miði vel áfram og sé á grunnstigi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×