Innlent

Með rafmagnsvopn í unglingapartíi

Jón Þór Stefánsson skrifar
Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í gærkvöld eða nótt afskipti af unglingapartíi þar sem ungmenni var með rafmagnsvopn.

Greint er frá atvikinu í dagbók lögreglunnar, en það mun hafa átt sér stað í umdæmi lögreglustöðvar eitt, sem nær yfir Miðborgina, Vesturbæ, Austurbæ, og Seltjarnarnes.

Ungmennið var flutt á lögreglustöð til skýrslutöku í samvinnu við forráðamenn og barnavernd.

Í umdæmi lögreglustöðvar þrjú, sem fer með mál í Kópavogi og Breiðholti, varð umferðarslys. Tvennt var flutt til aðhlynningar á slysadeild og tvær bifreiðar sátu eftir óökufærar. Önnur þeirra reyndist vera ótryggð.

Maður var handtekinn í umdæmi lögreglustöðvar fjögur, sem sér um Árbæ, Grafarholt, Grafarvog, Norðlingaholt, Mosfellsbæ, Kjósarhrepp og Kjalarnes. Maðurinn er grunaður um brot á lögreglusamþykkt en hann er sagður hafa verið með ofbeldistilburði á almannafæri.

„Vistaður í fangaklefa enda ekki í nokkru einasta ástandi til að vera meðal fólks,“ segir í dagbókinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×