Íslenski boltinn

Fyrir­liðinn fer frá Val til Breiðabliks

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Áhorfendur Bestu deildar kvenna munu þurfa að venjast því að sjá Elísu Viðarsdóttur grænklædda.
Áhorfendur Bestu deildar kvenna munu þurfa að venjast því að sjá Elísu Viðarsdóttur grænklædda.

Elísa Viðarsdóttir, fyrrum fyrirliði Vals, er gengin til liðs við Breiðablik í Bestu deild kvenna.

Elísa er uppalin hjá ÍBV og spilaði tvö tímabil með Kristianstad í Svíþjóð en hefur verið leikmaður Vals síðan 2016. Með Valsliðinu hefur hún orðið margfaldur Íslands- og bikarmeistari og verið fyrirliði liðsins síðustu ár.

Auk þess hefur Elísa leikið 53 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Hún var í leikmannahópi landsliðsins í Þjóðadeildinni í haust en hefur ekki spilað landsleik síðan 2023.

Elísa er þriðji leikmaðurinn sem gengur til liðs við Breiðablik á síðustu dögum en áður höfðu Bryndís Arna Níelsdóttir og Katelyn Duong samið við klúbbinn í Kópavogi.

Breiðablik er þannig að fylla í skörðin sem stjörnuleikmenn liðsins á síðasta tímabili skildu eftir sig.

Næsti leikur er einmitt gegn Val, fyrrum félagi Elísu, í deildabikarnum þann 5. febrúar. Breiðablik spilar svo átta liða úrslitaeinvígi í Evrópubikarnum gegn BK Hacken, sem hefst þann 11. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×