Fréttir

Bush styður Gonzales
George Bush, forseti Bandaríkjanna, kom í gærkvöld Alberto Gonzales, dómsmálaráðherra landsins, til aðstoðar í þeirri orrahríð sem hann stendur nú. Gonzales er sakaður um að átta saksóknurum úr embætti sínu af pólitískum ástæðum.

Áhersla frjálslyndra: Hömlur á innflytjendur
Frjálslyndi flokkurinn birtir heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu í morgun undir yfirskriftinni: Viljum við sitja uppi með sömu vandamál og aðrar þjóðir sem hafa leyft óhindraðan innflutning erlends vinnuafls. Spurt er hver kaup og kjör íslenskra iðnaðar- og byggingaverkamanna verði þegar hægist um á vinnumarkaði.

Ofbeldið í Írak eykst enn
Þrátt fyrir stórhertar öryggisráðstafanir í Írak létu fleiri lífið þar í ofbeldisverkum í marsmánuði en í mánuðinum þar á undan. Samkvæmt upplýsingum írösku ríkisstjórnarinnar dó 1.861 maður í landinu vegna átaka og hryðjuverka en í febrúar biðu 1.645 bana.

Viðrekstur á ferð
Lögreglumenn í Reykjanesbæ veittu bifreið athygli laust eftir miðnætti í nótt. Karlmaður sem var farþegi framan í bílnum sat hálfur út um gluggann og baðaði út höndum á meðan bifreiðin var á ferð. Lögreglumenn fengu þá skýringu að farþegi í aftursæti bifreiðarinnar hefði leyst vind. Mengunin hefði verið það mikil að farþeginn í framsætinu sá sér ekki fært að vera inni í bifreiðinni á meðan.
Frítt áfengi í unglingasamkvæmi
Um klukkan 11 í gærkvöldi fékk lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tilkynningu um að frítt áfengi væri veitt í samkvæmi fyrir 16 ára unglinga í heimahúsi á Laufásvegi. Lögreglan fór á staðinn og hitti fyrir um 100 ungmenni á aldrinum 14-18 ára. Þau sögðust hafa borgað þúsund til fimmtán hundruð króna aðgangseyri. Partýhaldarinn var 15 ára stúlka. Hún var afar ölvuð.

Tveir lögreglumenn á slysadeild
Tveir lögreglumenn fóru á slysadeild í morgun eftir að maður sló þá fyrir utan Sólon í miðborg Reykjavíkur. Lögreglan hafði verið kölluð til þar sem maðurinn lét ófriðlega fyrir utan kaffihúsið. Hann sló þá þegar þeir reyndu að tala við hann. Lögreglumennirnir hlutu minniháttar meiðsl í andliti.
Skemmd í skögultönninni
Fíllinn Tanni, sem á heima í dýragarðinum í Portland í Oregon í Bandaríkjunum, á óskemmtilegan dag í vændum. Á morgun fer hann í heimsókn til tannlæknisins til að láta gera við aðra skögultönnina en hún hefur beðið viðgerðar í heil fjórtán ár.
Lifði af fall af níundu hæð
Það þykir ganga kraftaverki næst að fimm ára gamall drengur komst lífs af þegar hann féll út um glugga af níundu hæð fjölbýlishúss í Hamilton í Ontario-fylki í Kanada.
Íhuga á breytingar á lögum um friðhelgi einkalífsins
Bogi Nilsson, ríkissaksóknari, segir menn þurfa að hugleiða það hvort ekki sé kominn tími til að endurskoða þann hluta almennra hegningarlaga sem lýtur að friðhelgi einkalífsins. Þetta segir hann í kjölfar þess að maður var sýknaður í héraðsdómi fyrir heimildarlausa myndatöku af naktri stúlku.

Refsingum hótað
Íranar láta að því liggja að bresku sjóliðarnir fimmtán, sem handteknir voru á dögunum, verði ákærðir og þeim refsað fyrir landhelgisbrot. Margaret Beckett, utanríkisráðherra Bretlands, kveðst áhyggjufull yfir stefnu íranskra stjórnvalda í málinu en hún sendi þeim opinbert svarbréf vegna þess í dag.
Samkomulag um vörn gegn kynferðisglæpum gegn börnum
Samkomulag hefur náðst, innan Evrópuráðsins, um tillögu að bindandi samningi um vernd barna gegn kynferðislegu ofbeldi en fastlega er búist við að samningurinn verði fullgildur hér á landi síðar á þessu ári. Það kallar á lagabreytingar, segir forstjóri Barnaverndarstofu, meðal annars um skilgreingu á kynferðisofbeldi gegn börnum sem og heimildir lögreglu til notkunar tálbeitu.
Segir Hafnfirðinga munu una úrslitum kosninganna
Hafnfirðingar kjósa í dag um stækkun álversins í Straumsvík. Mikil spenna ríkir enda afar tvísýnt um úrslit en kjörstöðum verður lokað eftir tæpan hálftíma. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir kosningaþátttökuna sýna að rétt hafi verið að ganga til kosninga um málið.

Húðflúrsæði hjá landgönguliðum
Allir sem vettlingi geta valdið í bandaríska landgönguliðinu þyrpast nú þessa dagana á húðflúrsstofur því frá og með morgundeginum verður þeim bannað að láta tattúvera sig.

Sjóliðanna bíður líklega ákæra
Bresku sjóliðarnir fimmtán sem Íranar hafa í haldi sínu verða líklega ákærðir og dregnir fyrir dómara. Undirbúningur að lögsókn gegn þeim er sagður standa yfir. Bandaríkjastjórn ljáir ekki máls á að láta íranska fanga í skiptum fyrir Bretana.
Ólga í Úkraínu
Stjórnmálakreppa virðist ríkja í Úkraínu um þessar mundir vegna harðnandi valdabaráttu Viktors Jústjenkó forseta og Viktors Janukovits forsætisráðherra. Fylkingar beggja hyggjast standa fyrir fjölmennum útifundum í höfuðborginni Kænugarði í dag og hefur lögregla talsverðan viðbúnað vegna þess.

Hicks afplánar aðeins níu mánuði
Dómarar við herdómstólinn í Guantanamo hafa ákveðið að Ástralíumaðurinn David Hicks þurfi aðeins að afplána níu mánuði af dómi sínum en hann var dæmdur í sjö ára fangelsi í gær.

Sönn ást spyr ekki um útlit
Ein fallegasta ástarsaga síðari tíma hélt áfram í vikunni. Svanurinn Petra, sem er sjaldgæfur svartur svanur, yfirgaf vetrardvalarstað sinn ásamt elskhuga sínum og synda þau nú bæði um tjörnina í Muenster í norðvesturhluta Þýskalands. Svanir velja sér maka til lífstíðar og því var það falleg stund þegar Petra synti aftur við hlið ástar sinnar, hjólabáts sem er í laginu eins og svanur.

Maradona á batavegi
Argentínska knattspyrnuhetjan Diego Maradona, sem lagður var inn á sjúkrahús í vikunni, er að jafna sig og ástand hans er nú orðið stöðugt. Maradona var lagður inn á sjúkrahús vegna óhófslegs lífernis.

Hæsti maður heims í hnapphelduna
Allsérstakt brúðkaup fór fram Kína í vikunni þegar Bao Xishun, hæsti maður heims, gekk að eiga unnustu sína, Xia Shujuan. Þessi slánalegi geitahirðir er ríflega 2,3 metrar á hæð en eiginkona hans er hins vegar ekki nema 1,68 m, sem þykir raunar ágætt í Kína.

Hicks fékk sjö ára dóm
Herdómstóll, í Guantanamo á Kúbu, dæmdi í dag Ástralann David Hicks til sjö ára fangelsisvistar, til viðbótar við þau fimm ár sem hann hefur þegar varið í fangabúðunum, fyrir að aðstoða hryðjuverkamenn.

Stoltenberg segir ESB-aðild úr sögunni
Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, segir afar ólíklegt að Norðmenn sæki um aðild að Evrópusambandinu úr þessu. Leiðtogi Samfylkingarinnar segir þetta engu breyta um Evrópustefnu flokksins.

Þrýstingurinn á Írana vex
Evrópusambandið og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafa skorað á Írana að sleppa fimmtán breskum sjóliðum sem þeir hafa í haldi sínu. Einn þeirra kom fram á íranskri sjónvarpsstöð í dag og baðst afsökunar á að hafa siglt inn í íranska landhelgi.

Icelandair áfrýjar úrskurði Samkeppniseftirlitsins
Icelandair hefur verið sektað um hundrað og níutíu milljónir króna, af Samkeppniseftirlitinu, fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína. Það telur að flugfélagið hafi notað hagnað, af sölu á dýrari fargjöldum, til að niðurgreiða netfargjöld sem seld voru í samkeppni við Iceland Express. Icelandair hyggst áfrýja til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

RÚV tapaði 420 milljónum í fyrra
Ríkisútvarpið tapaði 420 milljónum króna í fyrra. Þetta rúmlega tvisvar sinnum meira en árið 2005 þegar tapið nam 196 milljónum króna. Verri afkomu má rekja til hækkunar fjármagnsgjalda og hækkunar á dagskrárefni vegna óhagstæðrar gengisþróunar auk þess sem afnotagjöld hafa ekki fylgt verðlags- og launaþróun. Eigið fé stofnunarinnar var neikvætt annað árið í röð. Í uppgjöri stofnunarinnar segir að það verði ekki unað

Gengi krónunnar styrktist um 8,4 prósent
Gengi íslensku krónunnar styrktist um 8,4 prósenta á fyrstu þremur mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra veiktist gengi krónunnar um 12,2 prósent. Jöklabréf voru gefin út fyrir þrjá milljarða í dag en útgáfa sem þessi hefur áhrif á styrkingu krónunnar. Jöklabréf hafa verið gefin út fyrir 121 milljarð króna frá áramótum. Til samanburðar nam jöklabréfaútgáfan á öllu síðasta ári 175 milljörðum króna.
Rarik í tapi á fyrsta rekstrarári
Rarik ohf, skilaði 381 milljóna króna tapi á fyrsta rekstrarári sínu. Rekstrartímabil fyrirtækisins nær frá ágúst til loka síðasta árs. Þar á undan hét fyrirtækið Rafmagnsveitur ríkisins en breyting varð þar á í ágúst þegar Rarkik yfirtók alla eignir og skuldbindingar Rafmagnsveitanna. Bæði félögin skluðu 787 milljóna króna hagnaði á öllu síðasta ári.
Minni hagnaður hjá Olíufélaginu
Olíufélagið ehf skilaði 334,5 milljóna króna hagnaði á síðasta ári. Þetta er talsverður samdráttur á milli ára en félagið hagnaðist um 883,4 milljónir króna árið 2005. Afkoman er í samræmi við rekstraráætlanir.
Afkoman batnar á Suðurnesjum
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum skilaði 6,8 milljóna króna tekjuafgangi á síðasta ári. Til samanburðar nam tekjuafgangur sambandsins rúmum 4,2 milljónum króna árið 2005.

Sjóliða fórnað fyrir stefnu Bush og Blair
Þriðja bréfið frá sjóliðum í Íran hefur verið birt. Bréfið er frá Faye Turney eina kvenkyns sjóliðanum í 15 manna hópnum sem er í haldi Írana. Í því segir að henni hafi verið fórnað af stefnu Blair og Bush ríkisstjórnanna. Tími sé kominn til að óska þess að ríkisstjórnirnar breyti kúgunar- og afskiptatilþrifum sínum gagnvart öðrum ríkjum.

Verðbólga 1,9 prósenta á evrusvæðinu
Verðbólga mældist 1,9 prósent á evrusvæðinu í þessum mánuði, samkvæmt bráðabirgðaútreikningum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Þetta er 0,1 prósentustigi meira en í febrúar. Evrópski seðlabankinn hækkaði stýrivexti í byrjun mánaðar með það fyrir augum að halda aftur af verðbólguþrýstingi. Stýrivextir á evrusvæðinu hafa ekki verið hærri í fimm og hálft ár.