Innlent

Sig­ríður Björk segir af sér

Árni Sæberg skrifar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir var skipuð ríkislögreglustjóri árið 2020.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir var skipuð ríkislögreglustjóri árið 2020. Vísir/Vilhelm

Sigríður Björk Guðjónsdóttir hefur sagt af sér embætti ríkislögreglustjóra. Öll spjót hafa staðið á henni frá því að greint var frá því að embætti hennar hefði greitt ráðgjafarfyrirtæki 160 milljónir króna, meðal annars fyrir verslunarferðir í Jysk. Hún verður flutt í stöðu sérfræðings í aðgerðum gegn kynbundnu ofbeldi í dómsmálaráðuneytinu. Grímur Hergeirsson, lögreglustjórinn á Suðurlandi, hefur verið settur ríkislögreglustjóri tímabundið.

Frá þessu er greint í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Greiðslur ríkislögreglustjóra til ráðgjafafyrirtækisins Intra ráðgjöf hafa verið til umræðu undanfarna daga. Á síðustu fimm árum hefur embættið greitt Intru, og þar af leiðandi eina starfsmanni þess, Þórunni Óðinsdóttur, alls 160 milljónir króna að virðisaukaskatti meðtöldum, fyrir ráðgjöf hennar.

Tveimur dögum eftir að blaðamaður Ríkisútvarpsins fór að grennslast fyrir um málið í maí síðastliðnum var Þórunn ráðin í tímabundið fullt starf hjá embættinu. Að sama skapi var nokkrum sagt upp hjá embættinu vegna rekstrarhalla þess. Í lok október tilkynnti Ríkislögreglustjóri að ráðningarsamningur Þórunnar yrði ekki endunýjaður.

Mikilvægt að friður ríki um embættið

Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu segir að Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra hafi orðið við beiðni Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra um að láta af embætti. Þetta hafi veirð niðurstaða fundar þeirra beggja í gær.

„Þetta er farsæl niðurstaða og rétt ákvörðun af hálfu Sigríðar Bjarkar. Það er mikilvægt að um lögregluna ríki friður og traust. Nú stöndum við frammi fyrir því verkefni að koma rekstri embættis ríkislögreglustjóra á réttan kjöl og halda áfram að efla lögregluna í landinu. Ég þakka Sigríði Björk fyrir störf sín innan lögreglunnar undanfarna áratugi,“ er haft eftir ráðherra.

Í kjölfarið muni ráðherra flytja Sigríði Björk í stöðu sérfræðings í aðgerðum gegn kynbundnu ofbeldi í dómsmálaráðuneytinu.

„Ég hef lagt mikla áherslu á baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og þessi málaflokkur er forgangsmál hjá mér og ríkisstjórninni. Sigríður Björk hefur áratuga reynslu og þekkingu á þessu sviði sem mun því nýtast áfram.“

Grímur Hergeirsson settur ríkislögreglustjóri

Dómsmálaráðherra hafi ákveðið að setja Grím Hergeirsson tímabundið í embætti ríkislögreglustjóra frá 14. nóvember næstkomandi. Grímur eigi 30 ára feril að baki og hafi hafið störf hjá lögreglunni 1996. Hann hafi verið lögreglustjóri á Suðurlandi síðan árið 2022. Embætti ríkislögreglustjóra verði auglýst á næstunni.

Veitir ekki viðtöl

Í tilkynningu á vef lögreglunnar segir að Sigríður Björk eigi langan og farsælan feril að baki hjá lögreglu en hún hafi fyrst tekið við sem sýslumaður á Ísafirði árið 2002 og embætti ríkislögreglustjóra í mars árið 2020. Á farsælum ferli sínum hafi Sigríður Björk hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir vel unnin störf, sér í lagi fyrir að vera framsýn og afburðarleiðtogi en hafi hlotið hlaut stjórnunarverðlaun Stjórnvísis í flokki yfirstjórnenda árið 2021.

„Að vernda og virða eru einkunnarorð sem mótað hafa áherslur í störfum Sigríðar Bjarkar þá ekki síst í baráttu gegn kynbundnu ofbeldi. Ráðherra hefur samþykkt, að beiðni Sigríðar Bjarkar, að hún verði flutt í stöðu sérfræðings hjá dómsmálaráðuneytinu og geti þannig haldið áfram að sinna störfum sínum á þessu sviði. Þannig mun verðmæt þekking hennar og reynsla nýtast áfram til að vinna að áherslumálefnum ráðherra.“

Loks segir að ekki verði veitt viðtöl vegna málsins.

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×