
Innlent

Skrúfað fyrir bloggið
Össur Skarphéðinsson er einn af iðnari stjórnmálabloggurum landsins. Hætt er við að nokkurt hlé verði á pistlum hans á næstunni því kappinn er kominn í frí til Mæjorku suður í Miðjarðarhafi. Fram kemur á heimasíðu Össurar að eiginkona hans, dr. Árný Sveinbjörnsdóttir, hafi bannað honum að sinna stjórnmálum þarna suður frá og að hún hafi hlegið við þegar hann uppgötvaði að símasamband frá gististaðnum væri slitrótt. En til öryggis tók hún símann af eiginmanninum!

Nýr bæjarstjóri í Vesturbyggð
Bæjarráð Vesturbyggðar hefur ákveðið að ganga til samninga við Ragnar Jörundsson um starf bæjarstjóra. Þrír sóttu um starfið. Ragnar er 61 árs og hefur meðal annars gegnt starfi sveitarstjóra í Hrísey og Súðavík.

Nánast enginn fiskur í ánni
Veiði í Laxá á Ásum hefur ekki gengið sem skyldi í sumar. „Veiðin er mun verri en í fyrra og fór mjög rólega af stað. Það var nánast enginn fiskur í ánni,“ segir Bjarni Freyr Björnsson veiðivörður.

Stígagerð við Gullfoss styrkt
ÁTVR hefur veitt Umhverfisstofnun fimm milljóna króna styrk úr Pokasjóði til framkvæmda við gerð göngustíga og útsýnispalla við Gullfoss.
Tafir við innritun í Leifsstöð
Algengt er að tafir verði á innritun farþega í Leifsstöð þegar mikið er að gera. Ástæðan er sú að flokkunarkerfi fyrir farangur annar ekki lengur þeim farþegum sem vilja innrita sig á sama tíma.
Játar þjófnað á þremur bílum
Karlmaður á þrítugsaldri hefur játað stuld á þremur bílum á mánaðartímabili undir lok síðasta árs. Maðurinn, sem átti Nissan Patrol-bifreið fyrir, stal meðal annars tveimur Patrol-bílum til viðbótar, gerði breytingu á öðrum þeirra til þess að hann líktist þeim sem hann átti fyrir, setti númer síns bíls á þann stolna og notaði hann í einn mánuð. Þessa iðju stundaði hann í bílskúr heima hjá sér.
Síbrotakona fær fjóra mánuði
Kona á fertugsaldri var í Héraðsdómi Suðurlands í gær dæmd í fjögurra mánaða fangelsi fyrir að hafa í febrúar 2004 brotist inn í Skíðaskálann í Hveradölum, stolið þaðan peningum, matvælum og öðrum munum og ekið á brott undir miklum áhrifum slævandi lyfja og örvandi efna. Konan hefur frá árinu 1989 hlotið tíu refsidóma.
Stíflan hærri
Mótmælendur ráku upp stór augu þegar þeir lásu í gestastofu Landsvirkjunar, Végarði í Fljótsdal, að Kárahnjúkastífla væri 200 metra há. Úrskurður Skipulagsstofnunar hafði sagt til um að stíflan mætti ekki vera hærri en 190 metrar.
Gæsluvarðhald fellt úr gildi
Hæstiréttur hefur fellt úr gildi gæsluvarðhald yfir karlmanni sem rændi verslun Krónunnar í Mosfellsbæ fyrr í mánuðinum. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði dæmt manninn í gæsluvarðhald til 1. september.
Sjö ára börn fara í megrun
Aldur stúlkna sem fara í megrun færist neðar og neðar. Dæmi eru um að sjö til átta ára stúlkur hugsi um lítið annað. Hjúkrunarfræðingur í Vesturbæjarskóla hefur sent foreldrum bréf vegna málsins.

Skítkast í Hafnarfirði
Lögreglan í Hafnarfirði skoðar nú myndband sem ungir drengir í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði settu á internetið. Á myndbandinu sjást drengirnir kasta mannaskít í skólabyggingu.

Minnir á þjóðarmorðin í Rúanda
Amnesty International skorar á alþjóðasamfélagið að binda enda á stríðsglæpi gegn almennum borgurum í Líbanon og Ísrael. Framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty segir viðbrögð alþjóðasamfélagsins minna á viðbrögðin við þjóðarmorðinu í Rúanda.

Lengja á kennaranámið í fimm ár
Lengja á kennaranámið í fimm ár og auka veg og virðingu kennarastarfsins með því að setja á laggirnar svokallað kennsluráð. Þetta er meðal þess kemur fram í skýrslu starfshóps um framtíðarskipan kennaramenntunar sem menntamálaráðherra kynnti ríkisstjórninni í gær.

Samfylkingin vill að ríkisstjórnin beiti sér fyrir að stöðva mannréttindabrot Ísraelshers
Samfylkingin vill að ríkisstórnin beiti sér fyrir að alþjóðasamfélagið grípi til aðgerða til að stöðva mannréttindabrot Ísraelshers í Líbanon. Jón Gunnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar segir aðgerðarleysi hrjá ríkisstjórnina.

Landsbanki Íslands tekur sambankalán
Landsbanki Íslands hefur tekið sambankalán upp á 600 milljónir evra eða 55 komma tvo milljarða íslenskra króna. Segir bankinn þetta líklega vera stærstu viðskipti sinnar tegundar sem íslenskt fjármálafyrirtæki hefur tekið þátt í, en 28 fjármálafyrirtæki í 16 löndum, auk Landsbankans taka þátt í láninu.

Hefði komið til rýmingar í þéttbýli
Ef bensínflutningabíll ylti í Reykjavík, eins og gerðist í Ljósavatnsskarði í gær, gæti komið til stórtækrar rýmingar. Slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins segir það allt fara eftir ytri aðstæðum svo sem þéttleika byggðar, jarðvegi og veðri.

Segja þjóðvegina slysagildru
Flutningabílstjórar segja þjóðvegina alltof þrönga og dæmi séu um að hliðarspeglar flutningabíla rekist saman þegar þeir mætast.

Lögreglan lýsir eftir manni
Lögreglan í Reykjavík lýsir eftir Michal Piecychna sem er Pólverji fæddur 1975. Hans er saknað frá því þann 20. júlí sl, en þá sást til hans í Skeifunni í Reykjavík.
Mun færri fá greiddar vaxtabætur í ár en fyrra
Tíu þúsund færri einstaklingar fá greiddar vaxtabætur um næstu mánaðamót, en fengu vaxtabætur í fyrra. Heildar vaxtabótagreiðslur lækka um 700 milljónir króna milli ára, aðallega vegna hækkunar fasteignamats og aukinna tekna einstaklinga.

Menntamálaráðuneytið leitar allra leiða til að vernda LÍN
Eftirlitsstofnun EFTA krefst þess að skilyrði um að Evrópubúar hafi búið á Íslandi í tvö ár, áður en þeir geta fengið lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, verði fellt úr gildi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, segir ekki koma til greina að skilja Lánasjóð íslenskra námsmanna eftir galopinn.

Vísitala fasteignaverðs hækkaði í júní
Vísitala fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist 309 stig í síðasta mánuði en það er 0,6 prósenta hækkun frá maí, samkvæmt upplýsingum Fasteignamats ríkisins. Fasteignaverð hefur hækkað um 13,1 prósent síðastliðna 12 mánuði að jafnaði um 1 prósent undanfarið hálft ár. Hækkunin í júní er undir því meðaltali.
Samfylkingin skorar á ríkisstjórnina að grípa til aðgerða
Þingflokkur Samfylkingarinnar skorar á ríkisstjórn Íslands að beita sér með öllum tiltækum ráðum fyrir því að alþjóðasamfélagið grípi til aðgerða til að stöðva mannréttindabrot Ísraelshers í Líbanon.

Heildarvirði krónubréfaútgáfu orðið 240 milljarðar
Heildarvirði erlendra krónubréfaútgáfu er orðið um 240 milljarðar króna frá því hún hófst fyrir tæpu ári. Þingmaður Samfylkingarinnar varar við óvissunni sem þessu fylgir. Um 60 milljarðar króna eru á gjalddaga frá ágústmánuði til næstu áramóta.

Mótmælendur loka veginum að Ufsarstíflu
Um 20-25 mótmælendur eru búnir að loka veginum að Ufsarstíflu á Eyjabakkasvæðinu. Þeir sitja nú á veginum við vegamótin að Hraunaveitu og hreyfa sig hvergi þrátt fyrir tilmæli lögreglu. Bæði Íslendingar og útlendingar eru að mótmæla.

Nokkuð um árekstra í Reykjavík
Nokkuð var um árekstra í umferðinni í Reykjavík í gær og reyndist einn ökumaður sem lenti í árekstri vera próflaus og tveir aðrir undir áhrifum áfengis eða lyfja. Auk þess voru ellefu ökumenn teknir fyrir hraðakstur. Lögreglan vill brýna fyrir fólki að fara varlega í umferðinni og minnir á að neysla áfengis og lyfja eiga ekkert erindi í umferðina.
Þýskur verkamaður slasaðist í vinnuslysi
Þýskur verkamaður slasaðist í Laugardalnum í gær. Maðurinn fékk stein í andlitið þegar hann var að störfum ásamt öðrum við vinnupall við íþróttamannvirki. Maðurinn hlaut skurð í andlitið en var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Hann reyndist vera óbrotinn en ljóst er að öryggishjálmur sem hann bar gerði gæfumuninn.

Rússneskt rusl finnst í Hafnarfirði
Íbúi í Hafnarfirði grunar áhöfn á rússneskum togara, sem liggur úti fyrir höfninni, um að fleygja rusli í sjóinn. Meðal annars fannst rússnesk tómatsósuflaska í fjörunni í Hafnarfirði.

Brenndist illa er hann olli stórtjóni
Karlmaður á þrítugsaldri brenndist alvarlega þegar hann olli stórtjóni með því að kveikja í bílum á bílasölu í Reykjavík í nótt.
Mengun vegna bensínslyssins talin óveruleg
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands telur mengun vegna bensínslyssins í Ljósavatnsskarði í gær vera litla sem enga. Valdimar Brynjólfsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlitsins, segir mest af bensíninu hafa lent á veginum og vegkantinum en vegurinn er mikið upphækkaður á þessum stað.

Olíuflutningabíllinn var á um 90 km hraða
Olíubíllinn sem valt á þjóðveginum í Ljósavatnsskarði í gærmorgun, virðist hafa verið á ólöglegum hraða, samkvæmt ökurita bílsins. Að sögn Sigurðar Brynjólfssonar hjá lögreglunni á Húsavík, bendir fyrsta athugun á ökuritanum til þess að bíllinn hafi verið á 90 kílómetra hraða þegar hann mætti stórum flutningabíl, andartaki áður en hann valt.