Deandre Ayton, sem var valinn fyrstur í nýliðavali NBA-deildarinnar í fyrra, hefur verið dæmdur í 25 leikja bann fyrir að falla á lyfjaprófi.
Ayton var tekinn í lyfjapróf eftir fyrsta leik Phoenix Suns á tímabilinu, gegn Sacramento Kings aðfaranótt fimmtudags. Í sýni hans fannst þvagræsilyf sem er á bannlista NBA-deildarinnar.
Ayton var úrskurðaður í 25 leikja bann sem tekur gildi í kvöld þegar Phoenix sækir Denver Nuggets heim.
Phoenix ætlar að áfrýja banninu og vonast til að það verði stytt. Takist það ekki getur Ayton ekki spilað aftur með Phoenix fyrr en um miðjan desember.
Leikmannasamtök NBA ætla einnig að beita sér fyrir því bann Aytons verði stytt eða fellt úr gildi.
Ayton lék vel í leiknum gegn Sacramento. Hann skoraði 18 stig, tók ellefu fráköst og varði fjögur skot í 124-95 sigri Phoenix.
Á síðasta tímabili var Ayton með 16,3 stig og 10,3 fráköst að meðaltali í leik. Hann var valinn í fyrsta úrvalslið nýliða.
Stjarna Phoenix Suns dæmd í 25 leikja bann fyrir að falla á lyfjaprófi
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Mest lesið






Uppgjörið: Stjarnan - ÍBV 2-3 | Gott gengi Eyjamanna heldur áfram
Íslenski boltinn

Vilja úrslitaleik snemma vegna Eurovision
Enski boltinn


