Moise Kean var ekki í leikmannahópi Everton gegn Southampton í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn vegna brots á reglum félagsins. Everton vann leikinn, 1-2.
Kean mætti of seint á liðsfund í aðdraganda leiksins gegn Southampton. Hann var því ekki í 18 manna leikmannahópi Everton á laugardaginn þótt hann hafi ferðast með liðinu til Southampton.
Þetta ku ekki vera í fyrsta sinn sem Marco Silva, knattspyrnustjóri Everton, er ósáttur vegna óstundvísi Keans.
Everton keypti Kean frá Ítalíumeisturum Juventus á 27 milljónir punda í sumar.
Kean hefur ekki náð að skora fyrir Everton á tímabilinu og hefur aðeins verið í byrjunarliðinu í tveimur leikjum í ensku úrvalsdeildinni.
