Valt niður grýtta urð
Tvennt er alvarlega slasað eftir bílveltu niður bratta og stórgrýtta skriðu á Axarvegi á leið niður í Berufjörð um klukkan átta á fimmtudagskvöld. Fernt var í bílnum sem stöðvaðist um 40 metra frá veginum. Símasambandslaust er á þessum slóðum og gekk því fólkið slasað nokkra stund áður en bíl bar að. Í bílnum voru þrír unglingar og kona á fertugsaldri. Lögreglan á Fáskrúðsfirði segir að tveir hafi verið sendir heim að skoðun lokinni en í gær var tvennt flutt á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri til frekari rannsókna. Talið er að fólkið hafi orðið fyrir hryggmeiðslum.