
Innlent
Lögreglan bendluð við dópsalalista

Annar tveggja lögreglumanna, sem nefndur er á vefsíðu þar sem talin eru upp nöfn dópsala, hefur óskað eftir að rannsakað verði af hverju hans nafn sé á síðunni. Ingimundur Einarsson, aðstoðarlögreglustjóri í Reykjavík segist ekki hress með að lögreglan sé bendluð við eitthvað misjafn og rannsókn muni hefjast eins fljótt og verða megi. Ingimundur segir lögreglumanninn, sem óskaði eftir rannsókninni, starfa í fíkniefnadeildinni og hafi ekki viljað láta slíkar aðdróttanir yfir sig ganga. Hinn lögreglumaðurinn hefur ekki komið nálægt rannsókn fíkniefnamál í yfir sjö ár. Ingimundur segir að á vefsíðunni séu nöfn sem tengjast innflutningi og sölu fíkniefna og það sé ekkert leyndarmál, nöfn þeirra sé að finna í dómum og fjöldi fólks kannist við þau. Þá séu líka nöfn á síðunni sem lögreglan kannast ekki við og segist hann hreinlega efast um að hluti nafnanna sé í þjóðskrá. Ingimundur segir lögregluna ekki ætla að aðhafast vegna vefsíðunnar en þeir sem eru ósáttir við veru nafna sinna á síðunni geta höfðað meiðyrðamál á hendur þeim sem setur aðdróttanirnar fram.