Sex Írakar hafa fallið í morgun

Þrír Írakar féllu þegar sjálfsmorðssprengjuárás var gerð á bandaríska hervagnalest í borginni Samarra í Írak í morgun. Bíl var ekið upp að bílalestinni og hann sprengdur í loft upp. Írakskur lögreglumaður féll einnig þegar uppreisnarmenn réðust á hóp bandarískra hermanna í borginni. Í borginni Ramadí féllu tveir óbreyttir Írakar í skotbardaga í morgun eftir að sjálfmorðssprengjuárás var gerð á eftirlitsstöð Bandaríkjahers. Töluvert er um skæruliða og uppreisnarmenn í Ramadí og virðast þeir hafa komið sér þar fyrir eftir aðgerðir Bandaríkjahers í Fallujah.