Sjítar með 60% atkvæða?

Sameinaða Íraks-bandalagið, sem er samsteypa margra pólitískra samtaka sjíta-múslima, segir því hafi verið tilkynnt að það hafi fengið sextíu prósent atkvæða í þingkosningunum sem haldnar voru á dögunum. Opinberlega verður greint frá úrslitum kosninganna í Írak síðar í dag. Ekki kemur á óvart að sjíta-múslimar fái góða útkomu þar sem þeir eru bæði í meirihluta í landinu, og leiðtogar súnní-múslima hvöttu fylgismenn sína til þess að hunsa kosningarnar.