Yfirmaður knattspyrnumála hjá Reading, Nick Hammond, hrósar Brynjari Birni Gunnarssyni í hástert fyrir frammistöðu sína með liðinu í vetur. Reading er búið að vinna 1. deildina á Englandi og spilar því á meðal þeirra bestu á næsta tímabili.
"Leikmannahópur okkar er mjög samstilltur, allir leikmenn skipta máli. Gott dæmi um það er Brynjar Björn Gunnarsson. Hann hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliðinu en hefur verið hreint út sagt frábær með gríðarlegum áhrifum á liðið," sagði Hammond og sparar ekki lýsingarorðin. "Hann er mjög fjölhæfur sem hefur reynst okkur dýrmætt. Ég á hreinlega ekki til orð til að lýsa því hversu frábær hann hefur verið," sagði Hammond, sem greinilega heldur ekki vatni yfir Brynjari Birni.