Íbúðalán viðskiptabankanna hafa dregist saman um sjötíu og fimm prósent síðustu tuttugu mánuði. Íbúðalán bankanna námu 34,4 milljörðum króna þegar mest lét, í október 2004, en einungis var lánað fyrir 7,5 milljarða króna í maí síðastliðnum.
Magnús Árni Skúlason, dósent við Viðskiptaháskólann á Bifröst, segir óhagstæðari lánsskilyrði og erfiðar markaðsaðstæður helstu ástæður samdráttarins og spáir aukinni ásókn í leiguhúsnæði.
Viðskiptabankarnir hófu innreið sína á íbúðalánamarkað í ágúst 2004 og fasteignaverð snarhækkaði í kjölfarið. Greiningardeildir bankanna spá allt að tíu prósenta raunlækkun fasteignaverðs á næstu mánuðum.