Slökkviliðsmenn Brunavarna Suðurnesja björguðu í fyrrinótt fjögurra manna fjölskyldu, hjónum og tveimur ungum börnum, út um glugga á brennandi húsi í Keflavík. Feðgar sem einnig bjuggu í húsinu komust út af sjálfsdáðum. Engan sakaði.
Eldurinn kviknaði á þriðja tímanum í íbúð feðganna á miðhæð hússins, sem er tvær hæðir og kjallari. Að sögn lögreglunnar í Keflavík er talið að kviknað hafi í út frá kertaloga í íbúðinni. Mikill reykur fyllti stigagang hússins og komst fjölskyldan á efstu hæðinni því ekki út hjálparlaust.
Þegar slökkviliðsmenn komu að húsinu sprakk rúða og varð þeim þá ljóst að mikill hiti var í húsinu. Slökkvi- og björgunarstarf gekk þó greiðlega.
Feðgarnir af miðhæðinni fengu væga reykeitrun og voru fluttir á sjúkrahús þar sem þeir dvöldu yfir nótt. Fjölskylduna sakaði ekki en var þó flutt á Heilbrigðisstonun Suðurnesja til öryggis. Að lokinni skoðun fóru hjónin ásamt börnum sínum til ættingja sinna. Ekki er búið í kjallara hússins.
Reykræsta þurfti húsið og er íbúð feðganna mikið skemmd. Aðrir hlutar hússins eru minna skemmdir.