Húsdýragarðurinn Sigurörn, haförninn heppni sem Sigurbjörg Sandra Pétursdóttir frá Grundarfirði bjargaði frá bráðum bana á dögunum, hefur nú verið fluttur í stórt útibúr í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Þar gefst nú einstakt tækifæri til að skoða þennan konung íslenskra fugla.
Haförninn var bæði grútarblautur og á hann vantaði stélfjaðrirnar þegar Sigurbjörg fann hann. Grútinn hefur Þorvaldur Þór Björnsson hjá Náttúrufræðistofnun Íslands þvegið af Sigurerni en stélfjaðrirnar verða lengi að myndast á ný. Vist arnarins verður því löng í garðinum áður en hann heldur út í náttúruna á ný.