Innlent

„Ellibætur“ frá ríkinu eigi að heyra sögunni til

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Sigríður Andersen er þingflokksformaður Miðflokksins.
Sigríður Andersen er þingflokksformaður Miðflokksins. Vísir/Anton Brink

Sigríður Á. Andersen, þingflokksformaður Miðflokksins, segir tilefni til að bætur úr almannatryggingakerfinu vegna ellilífeyris fari að heyra sögunni til. Ríkisstjórnin hefur boðað umtalsverða hækkun frítekjumarks vegna lífeyrisgreiðslna til eldri borgara úr almannatryggingakerfinu en Sigríður telur tímabært að hætt verði að líta á ellilífeyrisgreiðslur frá ríkinu sem sjálfsögð réttindi.

„Við erum þeirra gæfu aðnjótandi hér á Íslandi að hafa borið gæfu til þess að taka upp þetta lífeyrissjóðakerfi sem við höfum í stað þess kerfis sem langflest önnur ríki í Evrópu hafa með tilheyrandi greiðslubyrði ríkissjóðs,“ sagði Sigríður meðal annars í umræðu um frumvarp Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, um almannatryggingar og heilbrigðisþjónustu, á Alþingi í gærkvöldi.

Hátt í sex milljarða árleg útgjaldaaukning nái málið fram að ganga

Með frumvarpinu er meðal annars gert ráð fyrir að almennt frítekjumark sem miðað er við við útreikning á fullum ellilífeyri hækki í skrefum úr 438 þúsund krónum og upp í 720 þúsund krónur árið 2028. Þá felur frumvarpið í sér ýmsar breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga, svo sem á aldursviðbót, launavísitölu og félagslegum viðbótarstuðningi við aldraða.

Gert er ráð fyrir að útgjaldaaukning ríkissjóðs gæti orðið allt að 5,9 milljarðar króna á ári verði frumvarpið samþykkt óbreytt.

Sigríður var meðal þeirra sem kvöddu sér hljóðs um málið í annarri umræðu sem fram fór á Alþingi í gær. Sagðist Sigríður meðal annars binda vonir við það að fyrr en síðar muni bætur til eldri borgara úr almannatryggingakerfinu heyra sögunni til. Kerfisbreytingar geti tekið nokkra áratugi, en kerfið eins og það hafi verið byggt upp sé til þess gert að fæstir ættu að þurfa á greiðslum frá ríkinu að halda í ellinni.

„Misskilningur“ að um sjálfkrafa réttindi sé að ræða

„Ég held að flestir á vinnumarkaði í dag eigi það rífleg lífeyrisréttindi, bæði úr almannatryggingahluta lífeyriskerfisins en einkum og sér í lagi í séreignasjóðum, að bætur úr almannatryggingakerfinu eiga að fara að heyra sögunni til,“ sagði Sigríður og hélt áfram.

„Það er einn misskilningurinn í þessu öllu saman þegar okkar besta fólk, eldri borgararnir, tala um þetta sem einhver laun eða réttindi. Að menn eigi sjálfkrafa réttindi til ellilífeyris frá almannatryggingum. Almannatryggingarnar eru bætur, það eru bótakerfi sem eiga að grípa þá sem af einhverjum orsökum hafa fallið milli skips og bryggju. Alveg eins og atvinnuleysisbætur eru bætur til þeirra sem ekki vinna. Þeir sem síðan fá vinnu eða eru eitthvað að vinna, þeir fá ekki áfram atvinnuleysisbætur.“

Að hennar mati ætti það sama að gilda um almannatryggingalífeyrinn. „Sem á að heita ellilífeyrisbætur kannski eða ellibætur, að menn þurfa að horfast í augu við það við höfum verið að byggja hér upp kerfi sem gengur út á það að menn beri ábyrgð hver og einn á sínum ellilífeyri og sínum tekjum og framfærslu í ellinni alveg eins og menn hafa sjálfir gert fram að þeim tíma.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×