Laxveiði í sumar hefur gengið í meðallagi vel, en misvel eftir ám, að sögn Óðins Sigþórssonar, formanns Landssambands Veiðifélaga.
„Vopnafjörðurinn og Borgarfjarðarárnar hafa verið góðar, en eitthvað síðra annars staðar. Þetta stefnir í meðalveiði. Ég spái að þetta verði rúmlega þrjátíu þúsund laxar,“ segir Óðinn.
„Þetta er töluvert minna en í fyrra, það var mjög góð stangveiði þá. Sumar ár eru seigar til, en það er þó ekki hægt að afskrifa þær, þótt það sé komið fram í ágúst. Laxinn hefur verið seint á ferðinni.
Norðvesturlandið hefur ekki verið sterkt í ár og Laxá í Ásum hefur verið í dálítilli lægð. Þetta gengur samt í sveiflum og það sem fer niður kemur upp aftur,“ segir Óðinn.
Að sögn Óðins hefur veiðst talsvert af örlöxum, eða „tittum,“ sem bendir til að skortur hafi verið á æti í sjónum. „Yfirleitt kemur gott stórlaxaár eftir gott smálaxaár, en sú er ekki raunin í ár. Það er kannski það eina sem hefur komið okkur á óvart,“ segir Óðinn.