Innlent

Í takti við það sem verið hefur

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Guðjón Hreinn Hauksson mun leiða félagið áfram.
Guðjón Hreinn Hauksson mun leiða félagið áfram. FF

Breyttar innritunarreglur í framhaldsskóla fela ekki í sér hugmyndafræðilega breytingu að mati Guðjóns Hreins Haukssonar formanns Félags framhaldsskólakennara. Hann segir þær í raun staðfesta það sem iðkað hefur verið áratugum saman að skólinn sé fyrir alla.

Alþingi samþykkti í síðustu viku lög sem heimila framhaldsskólum að líta til fleiri þátta við innritun nemenda í framhaldsskóla, líkt og íþróttaiðkunar og tónlistarnáms. Markmiðið er að auka fjölbreytni í nemendahópnum. 

Guðjón Hreinn segir breytingarnar á innritunarreglum í takti við það fyrirkomulag sem verið hafi undanfarna áratugi.

„Við erum að hreyfa okkur miklu meira í þá átt að framhaldsskóli er skóli fyrir alla. Hér eru allir velkomnir, enda fá allir skólavist. Hér er ekkert verið að boða einhvers konar hugmyndafræðilegar breytingar. Heldur er einfaldlega verið að staðfesta þá sýn á framhaldsskólann sem hefur verið iðkuð áratugum saman.“

Nokkur umræða hefur skapast um lögin og þau sögð mismuna börnum. Guðjón segir það af og frá.

„Maður þarf að velta fyrir sér hvað er framhaldsskóli. Á hann virkilega bara að vera fyrir þá sem að hafa staðið sig sem best á einhvers konar þröngum, bóklegum skala. Þetta er gjörsamlega langt frá því sem við hérna iðkum innan framhaldsskólans. Skóli er fyrir alla. Það eru allir velkomnir í framhaldsskóla. Þeir hafa mismunandi styrkleika og við erum ekki að innrita inn í framhaldsskóla nemendur út frá einhvers konar þröngum skilgreiningum á bóklegri hæfni. Þetta er bara liðinn tími.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×