Sprenging varð í keri í álveri Norðuráls á Grundartanga á sjötta tímanum í gær. Að sögn Slökkviliðsins á Akranesi skapaðist við það hætta en þó náðust fljótt tök á ástandinu. Engum varð meint af en kerið eyðilagðist og rafmagn fór af skálanum sem það var í. Álið úr kerinu lak í lagnastokka sem eru í kringum kerin.
Enginn eldur var á staðnum þegar slökkvilið bar að og voru slökkviliðsbíll og sjúkrabíll sem kallað hafði verið eftir frá Reykjavík afturkallaðir.