Bíll valt í nágrenni Þingeyrar aðfaranótt sunnudags. Þegar lögreglan á Ísafirði kom á vettvang var bíllinn gjörónýtur en engan ökumann að sjá.
Björgunarsveitin á Þingeyri var þess vegna kölluð til aðstoðar og fannst ökumaðurinn síðar um nóttina. Hann var lítið slasaður en áberandi ölvaður. Maðurinn var fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði en var útskrifaður þaðan stuttu síðar.
Þá varð slys í Mjóafirði á laugardag þegar tvær bifreiðar skullu saman. Engan sakaði í óhappinu en báðir bílarnir voru óökufærir á eftir.