Landssamband lögreglumanna telur undanfarna umfjöllun um störf lögreglumanna, meðal annars við Kárahnjúka, einsleita. Hún sé til þess fallin að draga úr trúverðugleika lögreglumanna og fagstéttarinnar í heild sinni. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá sambandinu.
Þar segir að við framkvæmd lögreglustarfa beri stundum við að valdbeiting verði nauðsynleg. Þess sé þá jafnan gætt að vandlega sé farið að reglum og í samræmi við valdheimildir sem lögreglumenn hafa. Óviðkunnanlegt sé þegar menn leggi sig fram við að gera störf lögreglumanna tortryggileg við þær aðstæður.