Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra undirritaði í fyrradag samkomulag milli Íslands, Danmerkur, Færeyja og Noregs um skiptingu landgrunns utan tvö hundruð mílna í suðurhluta Síldarsmugunnar. Samkomulagið felur í sér viðurkenningu á landgrunnsréttindum Íslands yfir 29 þúsund ferkílómetra svæði vestast í Síldarsmugunni í beinu framhaldi af íslensku efnahagslögsögunni norðaustur af landinu.
Niðurstaðan markar tímamót í landgrunnsmálum á Norðaustur-Atlantshafi eins og segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Tómas H. Heiðar, þjóðréttarfræðingur í utanríkisráðuneytinu segir niðurstöðuna af mörgum ástæðum hagstæða fyrir Ísland. „Hlutur Íslands í landgrunninu í suðurhluta Síldarsmugunnar er vel viðunandi og niðurstaðan er til þess fallin að auka almennan trúverðugleika Íslands sem ríkis sem gerir tilkall til landgrunnsréttinda utan 200 sjómílna á þessu og öðrum hafsvæðum.“ Tómas segir að ekki síst geti samkomulag Íslands, Danmerkur/Færeyja og Noregs um skiptingu landgrunnsins á áðurnefndu svæði, áður en það kemur til umfjöllunar landgrunnsnefndarinnar, haft mikilvægt fordæmisgildi fyrir Hatton Rockall-málið, en tveir fyrstnefndu aðilarnir eru aðilar að því máli.