Tónlist

Stelpan úr GusGus orðin fullorðin

Hafdís Huld Þrastardóttir - Bara fyrir Fréttablaðið
Hafdís Huld Þrastardóttir - Bara fyrir Fréttablaðið

Það eru komin 12 ár síðan Hafdís Huld Þrastardóttir byrjaði að hoppa um á sviði í magabol með hljómsveitinni GusGus. Ýmislegt hefur breyst en stærstu tíðindin eru að fyrsta sólóplata Hafdísar er komin út. Platan er persónuleg og Hafdís segist heyra sig fullorðnast í gegnum plötuna.

„Ég er alveg rosalega ánægð með viðtökurnar. Eftir að hafa unnið að plötunni í nokkur ár er gaman að heyra að það er fleirum en mér sem finnst hún hljóma vel," segir tónlistarkonan Hafdís Huld Þrastardóttir sem gaf út sína fyrstu sólóplötu á dögunum. Platan heitir Dirty Paper Cup og er gefin út af litlu plötufyrirtæki í Bretlandi, Red Grape Records. Þegar hafa tvær smáskífur verið gefnar út af plötunni og sú seinni, Ski Jumper, er mikið spiluð í útvarpi í Bretlandi um þessar mundir. Dirty Paper Cup hefur sömuleiðis fengið feiknagóðar viðtökur og gagnrýnendur hafa verið á einu máli um ágæti hennar. Til að mynda fékk platan fjóra af fimm í eink­unn hjá The Guardian.

Stíft tónleikahald
Hafdís Huld Þrastardóttir Sendi nýlega frá sér fyrstu sólóplötu sína og stefnir á að halda tónleika á Íslandi öðru hvoru megin við áramótin.

Mikil vinna hefur farið í gerð plötunnar og margir þekktir tónlistarmenn lögðu Hafdísi lið. Þar ber helst að nefna Chris Corner úr hljómsveitinni Sneaker Pimps og Jim Abbiss, sem sá um gerð plötu Arctic Monkeys fyrir skemmstu.

Um þessar mundir er Hafdís á tónleikaferðalagi um Bretland. Ferðalagið er svo stíft að hún varð að afboða fyrirhugaða tónleika sína á Airwaves. „Þetta eru tuttugu tónleikar sem við tökum í október. Flestir staðirnir sem við spilum á taka um 200 gesti sem hentar okkur vel. Við erum með hljóðfæri eins og banjó og ukulele og svo stundum leikfangahljóðfæri. Það er því ágætt að vera á þessum smærri stöðum," segir Hafdís.

Fimm ára vinna við plötuna

Hafdís Huld var fimmtán ára þegar hún gekk til liðs við Gus Gus. Vegna ungs aldurs hennar þurftu foreldrar hennar að skrifa undir plötusamning með sveitinni fyrir hennar hönd. Hafdís kom fram með Gus Gus um nokkurra ára skeið þar til hún var óvænt rekin úr hljómsveitinni árið 1999. Eftir að hafa hugsað sinn gang ákvað hún að flytjast til London árið eftir og fara að vinna að eigin tónlist. Það tók þó tíma að finna sinn eigin tón og fyrst um sinn var Hafdís Huld mest í hlutverki gestasöngkonu hjá danshljómsveitum.

Árið 2003 kom Hafdís svo fram á Airwaves með hljómsveit sér til fulltingis og þá hafði hún fundið rétta farveginn í tónlistinni. Árið eftir hóf hún svo nám í upptöku- og tónsmíðum við LCCM-skólann í Lundúnum. Námið tók tvö ár og seinkaði fyrirhugaðri plötuútgáfu Hafdísar en hún sér alls ekki eftir því, segir að platan sé mun betri fyrir vikið.

„Ég er búin að læra að vera sjálfstæðari í tónlistinni. Nú get ég gert allt sjálf, frá upphafi til enda, og það gefur manni frelsi til að gera það sem maður vill sjálfur gera. Ég get sjálf til dæmis alveg heyrt mig fullorðnast í gegnum plötuna, fyrir mér er hún hálfgerð þroskasaga. Þess vegna er þessi jákvæða gagnrýni mér afskaplega mikils virði."

Orðin hálf-bresk

Nú eru liðin sex ár frá því Hafdís Huld fluttist til London og hún er farin að aðlagast bresku samfélagi vel. „Ég hef náttúrulega eytt öllum mínum fullorðinsárum hér. Ég er farin að drekka rosa mikið te og er eiginlega hætt að kippa mér upp við að vera boðið te á fimm mínútna fresti. Það fer meira að segja ekki mikið í taugarnar á mér lengur að allt sé teppalagt hérna, en ég hef þó ekki enn vanist því að að fara á pöbbinn og borða franskar og bakaðar baunir í öll mál. Líf mitt er voða mikið hér en samt finnst mér alltaf jafn yndislegt að koma heim til Íslands. Að borða brauð með osti í eldhúsinu hjá mömmu og pabba og fleira slíkt."

Hafdís leigir íbúð í London með íslenskri vinkonu sinni sem er að læra grasalækningar og segir þær tvær „yndislega skrýtna blöndu". Áður hafði hún búið með íslenskum leiklistarnemum, þeim Anítu Briem og Álfrúnu Örnólfsdóttur en sú síðarnefnda lék einmitt með Hafdísi í myndbandinu við fyrsta smáskífulag plötunnar. Þegar seinna myndbandið fór í sýningar uppgötvaði Hafdís að tónlist hennar gæti vakið athygli og notið vinsælda.

„Ég var að versla á Oxford-stræti með Söru vinkonu minni. Þegar við vorum inni í Topshop var svo myndbandið sýnt úti um allt á stórum skjám. Þarna var ég bara eitthvað að fíflast í Krísuvíkinni og það var sýnt alls staðar. Mér fannst það hálf ótrúlegt," segir Hafdís og hlær.

Framundan er stíf spilamennska hjá Hafdísi og hljómsveitinni hennar. Platan verður gefin út í Frakklandi í byrjun nóvember og á Spáni og í Danmörku í byrjun næsta árs. Hún vonast þó til þess að geta komið til Íslands til að halda tónleika. „Okkur langar að fara stuttan túr. Það verður annað hvort í lok ársins eða í byrjun næsta árs. Þá geta vinir og vandamenn séð mig og vonandi koma nokkrir í viðbót."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×