Starfsmenn vantar í tæplega sjötíu af átján hundruð stöðugildum á leikskólum Reykjavíkur, að sögn Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, formanns leikskólaráðs. Starfsmenn vantaði í áttatíu og fjögur stöðugildi 1. október.
Ástandið er sérstaklega slæmt á tveimur leikskólum, vantar þrjá starfsmenn á hvorn skóla. Á öðrum þeirra, Gullborg, eru nítján börn send heim á dag og ekki von um að úr rætist fyrr en um áramót. Á hinum leikskólanum geta börnin bara verið hluta úr degi. Á öðrum leikskólum eru börnin sótt fyrr.
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður leikskólaráðs, segir að ástandið sé ekki verra nú en á sama tíma í fyrra og að það batni stöðugt. Hún staðfestir að ástandið sé slæmt á leikskólunum tveimur en vill ekki segja hvaða leikskólar það séu. Manneklan sé vegna langvarandi veikinda og óviðráðanlegra aðstæðna.
„Það koma kannski upp forföll eða veikindi og þá lendir skólinn í manneklu en í flestum tilfellum er það tímabundið," segir hún.
Verið er að bæta úr manneklunni. Búið er að breyta auglýsingaaðferðum. Auglýst er nú fyrir hvern skóla þar sem áhersla er lögð á sérstöðu hans og stefnu. Þá hefur verið samþykkt að stofna starfshóp í langtíma stefnumörkun við að fá fleira fagfólk inn auk þess sem aðrar aðferðir eru í undirbúningi.