Dagný Jónsdóttir, annar af fulltrúum Framsóknarflokksins í menntamálanefnd, lagði fram yfirlýsingu á fundi nefndarinnar í gærkvöldi um að Framsóknarflokkurinn styddi afgreiðslu frumvarpsins um Ríkisútvarpið ohf. úr nefndinni á fundinum.
Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar og fulltrúi minnihlutans í menntamálanefnd, sagði að þegar rúm klukkustund var liðin af fundinum hafði meirihlutinn ekki lagt fram neinar tillögur um að takmarka auglýsingatekjur RÚV í frumvarpinu. Fundinum var ekki lokið þegar Fréttablaðið fór í prentun í gærkvöldi.