David Beckham, leikmaður Real Madrid, segist hlakka mikið til að mæta loks ensku liði í Meistaradeildinni, en lið hans leikur við Arsenal annað kvöld. Hann segist þó heldur hafa viljað mæta sínum gömlu félögum í Manchester United í keppninni.
"Ég hugsa að við eigum góða möguleika gegn Arsenal, því árangur okkar á heimavelli er að lagast til muna. Við vorum orðnir svo lélegir þar að ég held að lið hafi verið alveg hætt að óttast Bernabeu, en við erum orðnir betri núna. Ég hef lengi beðið eftir að mæta ensku liði í Meistaradeildinni og hefði vilja mæta United, en það er gaman að mæta Arsenal sem er auðvitað frá borginni sem ég fæddist í," sagði Beckham.