Spænsku leikmennirnir í ensku úrvalsdeildinni hafa bent á að spænsk knattspyrnuyfirvöld ættu að taka sér ensku úrvalsdeildina til fyrirmyndar þegar kemur að því að taka á kynþáttafordómum í deildarkeppninni á Spáni, en áhorfendur þar í landi voru enn í fréttunum um helgina vegna kynþáttafordóma.
Samuel Eto´o, leikmaður Barcelona hótaði að ganga af velli í leik Real Zaragoza og Barcelona um helgina þegar hann fékk nóg af áreiti áhorfenda sem kölluðu apahljóð að honum í hvert sinn sem hann snerti boltann og nú þykir leikmönnum á Spáni nóg komið af þessari vitleysu.
Xabi Alonso hjá Liverpool telur landa sína geta lært ýmislegt af vinnubrögðum Englendinga í þessum efnum. "Fólk hér á Englandi er mun viðkvæmara fyrir svona háttalagi og hérna eru kynþáttafordómar litnir mun alvarlegri augum. Hérna er tekið strax á svona málum og þeim er ekki sópað undir teppið eins og gert hefur verið á Spáni. Kannski eru enskir einfaldlega komnir lengra í baráttunni við kynþáttafordóma, en ég held að spænskir gætu lært mikið af þeim," sagði Alonso.