Rafa Benitez heldur því fram að forráðamenn Tottenham séu að reyna allt sem í þeirra valdi stendur til að losa sig við framherjann Jermain Defoe og telur það líklegustu skýringuna á því að félagið hafi verið orðað við Djibril Cisse hjá Liverpool.
"Tottenham er að reyna að selja Defoe og er að reyna að fá Cisse í staðin, þeir eru að reyna allt til að selja hann. Cisse er hinsvegar leikmaður okkar og við erum ánægðir með hann, en Tottenham talar ekki um annað en Cisse - þeir eru vitlausir í að selja,"sagði Benitez í samtali við BBC í dag, en ummæli hans verða að teljast nokkuð einkennileg þar sem Tottenham gaf út sérstaka yfirlýsingu í gær sem sagði félagið ekki hafa nokkurn áhuga á franska sóknarmanninum.