Sir Alex Ferguson var mjög ánægður með sína menn eftir sigurinn á Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í dag og segir lið sitt eiga ágæta möguleika á að ná Chelsea á lokasprettinum. Wayne Rooney var maður leiksins og skoraði annað mark liðsins og lagði hitt upp fyrir Kóreumanninn Park.
"Sóknarleikur okkar var mjög góður í dag. Við vorum búnir að kortleggja lið Arsenal, sem hefur verið að spila einstaklega vel upp á síðkastið og ákváðum að blása til sóknar. Það heppnaðist vel í dag ef við höldum áfram að vinna - eigum við góða möguleika á að ná Chelsea að stigum," sagði Ferguson ánægður.
Arsene Wenger sagði sína menn hafa virkað þreytta í dag og sagði United hafa átt skilið að vinna leikinn. "Mínir menn virkuðu frekar þreyttir í leiknum, sérstaklega á síðasta hálftímanum og þessvegna má líklega segja að United hafi átt skilið að vinna. Okkur tókst samt ekki að nýta góð færi í leiknum sem hefðu klárlega breytt niðurstöðunni," sagði Wenger.