Nú stefnir í æsilegan lokasprett milli erkifjendanna í norðurhluta Lundúna, Arsenal og Tottenham um sæti í Meistaradeildinni á næsta keppnistímabili. Bæði lið unnu leiki sína í dag og eiga eftir að mætast innbyrðis á lokasprettinum. Þá vann Portsmouth gríðarlega mikilvægan sigur í botnbaráttunni.
Arsenal lagði West Brom 3-1. Alexandr Hleb kom Arsenal yfir snemma leiks, en Nigel Quashie jafnaði leikinn á 72. mínútu og ekki laust við að farið hafi um stuðningsmenn Arsenal í kjölfarið. Robert Pires var þó ekki lengi að koma heimamönnum yfir á ný og Dennis Bergkamp innsiglaði sigurinn með glæsilegu marki í lokin.
Tottenham vann 1-0 útisigur á Everton þar sem Robbie Keane skoraði sigurmark gestanna úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Tottenham fékk fjölda dauðafæra í leiknum sem það náði ekki að nýta, en náði að landa sigrinum þrátt fyrir mikla taugaveiklun á lokamínútunum.
Gary O´Neil skoraði sigurmark Portsmouth gegn Middlesbrough og landaði þar með gríðarlega mikilvægum stigum í botnbaráttunni.