Manuel Pellegrini, þjálfari Villarreal, lyfti orðastríðinu fyrir leik sinna manna gegn Arsenal í Meistaradeildinni í kvöld í nýjar hæðir í morgun með því að kalla Arsene Wenger, stjóra Arsenal, hræsnara.
Wenger var æfur út í leikmenn Tottenham um síðustu helgi en þá héldu þeir áfram leik þrátt fyrir að leikmaður Arsenal lægi meiddur á vellinum og skoruðu mark í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni um helgina.
Pellegrini segist hafa orðið hissa þegar hann las þessi ummæli Wengers og segir hann ekki samkvæman sjálfum sér. "Hann var sekur um sama athæfi í fyrri leik okkar. Það gerðist nokkrum sinnum sem að mínir menn lágu meiddir á vellinum en Arsenal hélt áfram að spila eins og ekkert hefði í skorist. Wenger hélt því fram að þeir væru að gera sér upp meiðslin án þess að hafa nokkuð fyrir sér. Hann er bara hræsnari," segir Pellegrini.