Jose Mourinho átti ekki til orð til að lýsa lélegri dómgæslu í leik Blackburn og Chelsea í gær, þar sem Englandsmeistararnir töpuðu 1-0 en Blackburn tryggði sér Evrópusæti. Mourinho sagði að ef Englandsmeistaratitillinn hefði verið í húfi í leiknum, hefði hann líklega haldið ræðu yfir dómurunum sem hefði kostað hann stjóraferil sinn í landinu.
"Ég tek ekkert af Blackburn-liðinu sem lék vel í gær og miklu betur en þegar við mættum þeim í fyrra. Þetta er allt annað lið og eiga árangur sinn vel inni. Við lékum ágætlega á köflum, en þriðja liðið (dómararnir) voru skelfilegir.
Ég talaði við dómarann eftir leikinn og gat sem betur fer hlegið af öllu saman, því við erum orðnir meistarar. Hefði Englandsmeistaratitillinn hinsvegar verið í húfi á þessum leik, hefði ég að öllum líkindum haldið yfir þeim þrumuræðu sem hefði orðið til þess að ég yrði settur í ævilangt bann.
Ég bað leikmenn mína að reyna að sleppa við að láta reka sig af velli í leiknum svo þeir þyrftu ekki að taka út leikbönn í byrjun næstu leiktíðar, svo það hefði nú kannski verið dálítið kjánalegt ef ég hefði svo látið dæma sjálfan mig í bann," sagði Mourinho.