Um 20-25 mótmælendur eru búnir að loka veginum að Ufsarstíflu á Eyjabakkasvæðinu. Þeir sitja nú á veginum við vegamótin að Hraunaveitu og hreyfa sig hvergi þrátt fyrir tilmæli lögreglu. Bæði Íslendingar og útlendingar eru að mótmæla.
Mótmælendur segjast vilja vekja athygli á því að Landsvirkjun sé að vinna á Eyjabakkasvæðinu þrátt fyrir að um 45 þúsund Íslendingar hafi skrifað undir áskorun til stjórnvalda um friðun svæðisins.
Í tilkynningu frá mótmælendunum segja þeir Landsvirkjun vera að byggja fleiri stíflur inni á Eyjabakkasvæðinu heldur en almenningi er kunnugt um og að aðgerðir Landsvirkjunar séu mun víðtækari heldur en kynnt hafi verið og samþykkt hafi verið í umhverfismati.