Enska úrvalsdeildarliðið Tottenham átti vel heppnaða endurkomu í Evrópukeppnina í kvöld þegar liðið lagði tékkneska liðið Slavia frá Prag 1-0 á útivelli í fyrri leik liðanna í Evrópukeppni félagsliða. Það var Jermaine Jenas sem skoraði eina mark leiksins undir lok fyrri hálfleiks og enska liðið því í ágætum málum fyrir síðari leikinn á heimavelli eftir hálfan mánuð.
Þess má til gamans geta að þetta var 100. leikur Lundúnaliðsins í Evrópukeppni, en fyrir nákvæmlega 35 árum upp á dag, mætti Tottenham Keflavík hér á Íslandi í fyrsta leik beggja félaga í þessari keppni. Þá hafði enska liðið betur 6-0 og stóð síðar uppi sem sigurvegari í keppninni.