Karlmaður sem fannst látinn um borð í Norrænu við komuna til Þórshafnar í Færeyjum í síðustu viku lést af innvortis áverkum sem hann hlaut í bílveltu tveimur dögum áður.
Maðurinn heitir Þórður Einar Guðmundsson, hann var fjörtíu og fjögurra ára og var búsettur í Danmörku. Hann kom til Íslands í september í þriggja vikna frí og hélt aftur heim á leið í síðustu viku með ferjunni Norrænu. Á leið sinni austur þann 17. október í síðustu viku velti hann bíl sínum við Djúpavog. Hann var fluttur til aðhlynningar á Djúpavogi en læknir þar ákvað að flytja hann til frekari rannsókna á sjúkrahúsið á Egilsstöðum. Þar var hann skoðaður af vakthafandi lækni en var ekki lagður inn. Daginn eftir tók hann Norrænu á Seyðisfirði en fannst látinn í káetu sinni, degi síðar, við komuna til Þórshafnar.
Lögreglan á Fáskrúðsfirði hefur rannsakað bílveltuna sem banaslys síðan á föstudaginn en þá bárust upplýsingar um að hann hefði líklega látist af völdum áverka sem hann hlaut í bílveltunni.
Lík mannsins var krufið í vikunni og segir barnsmóðir hans að sér hafi verið tjáð af lögreglunni í Færeyjum að banameinið hafi verið innvortis blæðing vegna gats á milta sem hann fékk í bílveltunni.
Lögreglan í Færeyjum hefur lokið rannsókn málsins en lík mannsins verður flutt á morgun með Norrænu til Danmerkur.
Þórður Einar lætur eftir sig þrjár dætur.