Ferðastyrkur verður framvegis greiddur fyrir tvo fylgdarmenn en ekki einn þegar barn er sent utan í sjúkdómsmeðferð eftir breytingar á reglugerð sem Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra undirritaði í dag. Um leið kynnti ráðherrann breytingarnar fyrir fulltrúum Sjónarhóls og Umhyggju, félags sem vinnur að bættum hag sjúkra barna og fjölskyldna þeirra.
Fram kemur í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu að í fyrra hafi verið greiddur ferðastyrkur og uppihaldskostnaður fyrir 55 börn sem fengu meðferð á erlendum sjúkrahúsum í Bandaríkjunum og Svíþjóð. Greiddur var ferðastyrkur fyrir báða foreldra í 28 tilfellum, en með reglugerðarbreytingunni nú fá báðir foreldrar ferðastyrk og tvöfaldast þannig sá fjöldi foreldra sem nú nýtur styrkjanna.
Breytingarnar sem í reglugerðinni felast gagnast m.a. foreldrum barna með missmíð á andliti eða eyrum, þeirra barna sem þurfa kuðungsígræðslu og eru með skarð í vör og góm. Þá eru báðir foreldrar barna styrktir sem þurfa í flóknar rannsóknir, leysimeðferð, eru með æðamissmíð í útlimum eða eru merggjafar.