Keppnin um sterkasta mann heims hjá aflraunasambandinu IFSA hefst með látum í álverinu í Straumsvík á mánudaginn en þar er um að ræða forkeppni. Þaðan komast svo 12 keppendur áfram í úrslit sem fara fram í Reiðhöllinni í Víðidal á föstudag og laugardag eftir viku.
24 keppendur munu á mánudaginn etja kappi í álverinu um 12 laus sæti í úrslitunum og þar verða þrír Íslendingar meðal keppenda, þeir Benedikt Magnússon, Georg Ögmundsson og Stefán Sölvi Pétursson.
Keppninni verður sjónvarpað í 219 löndum á 15 tungumálum og berst hún þar með inn á um 350 milljón heimili víðsvegar um heiminn ef marka má fréttatilkynningu frá IFSA Ísland.
Enginn aðgangseyrir verður á forkeppnina í Straumsvík en þar hefjast átökin klukkan 14 mánudaginn 20. nóvember nk. Úrslitin fara svo fram í Reiðhöllinni í Víðidal eins og áður sagði og þar hefst keppni klukkan 18:00 á föstudeginum 24. nóvember og klukkan 15 á laugardeginum 25. nóvember.
Aðgangseyrir er 1500 krónur á hvorn keppnisdag í úrslitunum fyrir sig - en hægt verður að kaupa miða á báða keppnisdagana fyrir aðeins 2000 krónur. Mótið verður helgað minningu Jóns Páls Sigmarssonar og verður verðlaunagripur mótsins stytta af Jóni sem Orkuveitan hefur látið smíða.