Wallop Bhukkanasut, einn af æðstu stjórnendum taílenska ríkisflugfélagsins Thai Airways, segir tafir á afhendingu A380 risaþotum flugfélagsins hafa orðið til þess að flugfélagið verði að endurskoða langtímaáætlanir sínar. Svo getur farið að flugfélagið falli frá kaupum á risaþotunum.
Tvívegis hefur verið tilkynnt um tafir á risaþotunni frá Airbus, sem er ein sú stærsta í heimi, á árinu. Í fyrstu var stefnt að því að afhenda fyrstu vélarnar í næsta mánuði en það hefur verið framlengt fram til í október á næsta ári. Er afhendingin þar með orðin tveimur árum á eftir áætlun.
Flugfélög víða um heim hafa hætt við kaup á risaþotunni vegna tafanna eða frestað kaupum um nokkur ár.
Breska ríkisútvarpið hefur eftir Wallop, að ákvörðun um málið verði tekin í byrjun næsta árs.
