Ítalskir saksóknarar hafa hafið rannsókn á þeim ásökunum vinstri sinnaðs dagblaðs á Ítalíu að flokkur Silvio Berlusconis, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, hafi reynt að hafa rangt við í þingkosningum sem fóru fram í apríl síðastliðnum. Berlusconi neitar öllu og íhugar málsókn.
Ásökunin kemur fram í heimildarmynd sem að var gefin með blaðinu í dag. Þar er fullyrt að flokkur Berlusconis hafi breytt auðum seðlum í atkvæði merkt sér. Venjulega eru víst um ein og hálf milljón auðra seðla í kosningum á Ítalíu en þetta árið hafi "eingöngu" verið um hálf milljón seðla sem voru auðir.
Blaðamennirnir sem gerðu diskinn vísuðu einnig í fleiri gögn og þar á meðal að útgönguspár höfðu sýnt mun meiri mun á fylgi flokkanna en úrslit kosninganna gáfu til kynna. Gefa þeir í skyn að tölvuforrit hafi verið notað til þess að breyta auðu seðlunum.
Flokkur Berlusconis neitar öllu og er sem fyrr sagði að íhuga málsókn. Á sama tíma segja þeir rannsóknina vera af hinu góða þar sem hún muni sýna fram á að þeir hafi ekki haft rangt við í kosningunum.
Fréttavefur BBC skýrir frá þessu.