Þriggja daga útgöngubanni í Bagdad, höfuðborg Íraks, lauk í morgun. Umferð fór að flæða á ný um götur Bagdad en notkun ökutækja hefur verið bönnuð í borginni síðan á föstudaginn.
Írakar hafa margir hverjir vart þorað út úr húsi af ótta við aðra árás en yfir tvö hundruð Írakar létu lífið í árás á markað í Bagdad á fimmtudaginn. Árásin varð í Sadr hverfinu og er hún ein sú mannskæðasta frá innrás Bandaríkjamanna í Írak árið 2003. Þrír bandarískir hermenn létust í átökum við uppreisnarmenn í landinu í gær.