Skemmdarvargur skeytti skapi sínu á eigum Hveragerðisbæjar í nótt og olli talsverðu tjóni. Hann braut rúður í þjónustuhúsinu við tjaldstæðið, í grunnskólanum þar skammt frá og loks í upplýsingamiðstöðinni við hverasvæðið, alls átta rúður. Hann virðist hafa notað einhverskonar barefli því engir steinar fundust á vettvangi.
Skemmdarvargurinn er ófundinn og óskar lögreglan í Árnessýslu eftir upplýsingum íbúa um grunsamlegar mannaferðir í nótt.