Körfubolti

New York lagði Utah á flautukörfu

Stephon Marbury bjargaði New York fyrir horn með ótrúlegri flautukörfu í nótt
Stephon Marbury bjargaði New York fyrir horn með ótrúlegri flautukörfu í nótt NordicPhotos/GettyImages

Fámennt lið New York gerði sér lítið fyrir og lagði Utah Jazz í framlengdum leik á NBA TV í nótt þar sem Stephon Marbury tryggði New York 97-96 sigur með sniðskoti um leið og leiktíminn leið. Utah hafði feikna yfirburði í upphafi leiks og stefndi í stórtap New York, en gestirnir spiluðu sinn versta leik á tímabilinu eftir það og heimamenn gengu á lagið og höfðu sigur.

Marbury skoraði 29 stig fyrir New York sem hafði aðeins 8 leikmenn í leiknum vegna meiðsla og leikbanna. David Lee var besti maður New York með 17 stig og hirti 20 fráköst. Leikstjórnandinn Deron Williams hélt Utah inni í leiknum og skoraði 23 stig eins og Carlos Boozer, en ljóst er að Utah verður ekki lengi á meðal efstu liða í deildinni með annari eins spilamennsku.

Dwyane Wade skoraði 29 stig og sigurkörfuna þegar Miami vann nauman heimasigur á meiðslum hrjáðu liði New Orleans 101-99. Chris Paul skoraði 26 stig fyrir New Orleans.

New Jersey lagði Golden State 105-97. Baron Davis skoraði 25 stig fyrir Golden State en Nenad Krstic skoraði 26 stig fyrir New Jersey og Jason Kidd náði enn einni þrennunni með 10 stigum, 12 stoðsendingum og 11 fráköstum.

Memphis lagði Seattle í tvíframlengdum hörkuleik. Mike Miller skoraði 27 stig, hirti 11 fráköst og gaf 7 stoðsendingar hjá Memphis en Rashard Lewis skoraði 36 stig og hirti 14 fráköst fyrir Seattle.

Denver lagði Washington 117-108  þrátt fyrir að vera án Carmelo Anthony og JR Smith. Earl Boykins skoraði 29 stig fyrir Denver og Marcus Camby skoraði 25 stig og hirti 17 fráköst. Caron Butler skoraði 26 stig og hirti 10 fráköst fyrir Washington og Gilbert Arenas skoraði 23 stig, en hitti mjög illa úr skotum sínum.

Loks vann Dallas fjórða leikinn í röð þegar liðið skellti Sacramento 100-91. Dirk Nowitzki skoraði 29 stig og hirti 13 fráköst fyrir Dallas en Brad Miller skoraði 19 stig fyrir Sacramento.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×