Körfubolti

Dallas vann stórleik næturinnar

Dallas hafði betur gegn Pheonix í uppgjöri tveggja heitustu liða NBA-deildarinnar í nótt, 101-99, í æsispennandi og skemmtilegum leik. Dirk Nowitzki skoraði sigurkörfuna rúmri sekúndu fyrir leikslok en Dallas hefur nú unnið átta leiki í röð.

Nowitzki skoraði 27 stig í leiknum og var öflugur en Jason Terry var að öðrum ólöstuðum maður leiksins með 35 stig. Hjá Pheonix skoraði Amare Stoudamire 25 stig og Steve Nash 24.

San Antonio bar sigurorð af Utah, 106-83. Eins og svo oft áður var það sterk liðsheild sem skóp sigur San Antonio en Tony Parker skoraði 22 stig og Tim Duncan 20. Hjá Utah spiluðu allir leikmenn langt undir getu, eins og lokastaðan gefur til kynna, og var stigahæsti leikmaður liðsins, Derron Williams, með aðeins 11 stig.

Þá vann Denver lið Seattle með 112 stigum gegn 98. Allan Iverson skoraði 44 stig fyrir Denver, það langmesta sem hann hefur skorað í treyju liðsins eftir að hafa komið frá Philadelphia í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×