Árlegir afslættir og markaðsstyrkir sem SMS verslunarkeðjan í Færeyjum fékk frá stærsta birgja sínum, Dagrofa, námu sem samsvarar um 36 milljónum króna. Það er talsvert lægri upphæð en kredityfirlýsing frá SMS til Baugs, sem skýrð hefur verið af sakborningum í Baugsmálinu sem markaðsstyrkur frá Dagrofa vegna kaupa á kaffi.
Sjö færeysk vitni komu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í gær, og var því eingöngu fjallað um þann ákærulið í Baugsmálinu sem tengist Færeyjum. Þar eru Tryggvi Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannesson ákærðir fyrir að rangfæra bókhald Baugs með því að láta færa kredityfirlýsingu frá SMS að upphæð 46,7 milljónum króna sem tekjur í bókhaldi Baugs.
Í gær upplýstu vitni dóminn um að stærstur hluti innfluttra vara til SMS frá Danmörku kæmi frá heildsalanum Dagrofa. Vegna þessa fengi verslunarkeðjan endurgreitt frá birgjanum árlega ákveðna upphæð.
Árni Ellefsen, endurskoðandi félagsins, sagði þessa eftirágreiddu afslætti frá Dagrofa nema um 3 milljónum danskra króna á ári, gróft áætlað, sem jafngilda um 36 milljónum íslenskra króna. Hans Mortensen, einn eigenda SMS, staðfesti að litið væri á þessa afslætti sem markaðsstyrk frá Dagrofa til SMS.
Tryggvi sagði fyrir dómi við upphaf málareksturs í héraðsdómi fyrir nokkru að þarna væri um „röð mistaka“ að ræða, hann hafi óskað eftir kreditreikningi vegna markaðsstuðnings vegna fyrirhugaðs innflutnings á kaffi.
Baugur á helmings hlut í SMS verslunarkeðjunni, en hinn helminginn á Hans Mortensen. Sonur Hans, Niels Heini Mortensen, er framkvæmdastjóri SMS. Niels sagði í gær að Tryggvi hefði hringt í sig og óskað eftir kreditreikningi, en hann hafi verið staddur á ferju og ekki heyrt almennilega í Tryggva. Hann hafi því beðið Tryggva að hringja í Hans.
Hans staðfesti í gær að hann hefði gefið út kredityfirlýsingu að beiðni Tryggva seint í ágúst 2001. Bæði hann og Niels staðfestu að engin viðskipti hafi verið bak við reikninginn, og að Tryggvi hafi lagt til bæði orðalagið og upphæðina á reikningunum.
Gerð var húsleit hjá Baugi á Íslandi 28. ágúst 2002, og 10. september var gerð húsleit hjá SMS í Færeyjum. Niels var spurður um fund sem hann átti með Tryggva í Kaupmannahöfn milli þessara tveggja húsleita. Í lögregluskýrslu sem tekin var af Niels eftir húsleitina hjá SMS er haft eftir honum að á þessum fundi hafi Tryggvi beðið hann um að segja lögreglunni ósatt um kredityfirlýsinguna.
Niels staðfesti ekki þann framburð fyrir dómi í gær, og benti á að margt hafi verið athugavert við það hvernig skýrslan var tekin. Hann hafi því ekki skrifað undir skýrsluna, sem venjan er að vitni geri til að staðfesta að rétt sé eftir haft.