Erlent

Frá uppgröftrum

Fornleifar við Kárahnjúka. Garðar Guðmundsson gerir grein fyrir búsetuleifum sem fundust og eru nú farnar undir vatn.
Fornleifar við Kárahnjúka. Garðar Guðmundsson gerir grein fyrir búsetuleifum sem fundust og eru nú farnar undir vatn.

Mikil umskipti í fornleifarannsóknum á síðustu árum eru að skila bráðabirgðaniðurstöðum og þeim verður að skila til almennings og fræðasamfélagsins, heima og heiman. Fornleifafræðingar halda ráðstefnu í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands í dag og kynna bráðabirgðaniðurstöður úr rannsóknum sem eru í gangi og hefst hún kl. 13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins.

Þar er fjallað um rannsóknir sem komnar eru til vegna framkvæmda, til dæmis á kumli í Hringsdal, minjum sem hurfu í lónið við Kárahnjúkavirkjun og persónurannsókn á 17. aldar kotbónda. Garðar Guðmundsson gerir grein fyrir rannsókn rústa við Kárahnjúka. Fundur þeirra var óvæntur og bendir til búsetu á svæðum sem hingað til hafa verið út úr kortinu.

Margrét Hrönn Hallmundardóttir segir frá kotum í Rangárþingi ytra. Þar hafa rústir komið í ljós vegna uppblásturs og er búið að gera svokallaða könnunarskurði gegnum þær. Guðrún Alda Gísladóttir segir frá athugunum úr könnunarskurðum á Útskálum í Garði. Á Litlu-Núpum í landi Laxamýrar í Aðaldal, S-Þingeyjarsýslu var grafið garðlög, tóft og möguleg kuml. Howell M. Roberts segir frá. Kristján Mímisson segir frá rannsókn á 17. aldar býli á Búðarárbakka í Hrunamannahreppi. Þá segir Oscar Alfred frá rannsókn vegna framkvæmda við tónlistarhúsið við Arnarhól. Steinunn Kristjánsdóttir mun að loknu kaffihléi greina frá rannsókn á tóft innan kirkjugarðsins á Hofi í Vopnafirði. Rannsókn á bæjarstæði í Vatnsfirði, Djúp, kynnir Guðrún Alda Gísladóttir.

Á Laugarfellsöræfum er í gangi frumrannsókn á bæjarstæðum Þórutófta, Sandmúla, Bálsbrekku og Helgastöðum á Krókdal. Orri Vésteinsson gerir grein fyrir uppmælingu og könnunarskurðum. Að síðustu segir Adolf Friðriksson frá kumlum og mannvirkjum í Hringsdal við Arnarfjörð.

Flestar þessar rannsóknir eru bráðaaðgerðir og oft unnar undir mikilli pressu verktaka sem verða að gera hlé á framkvæmdum ef minnsti grunur er um fornleifar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×