Tónlist

Justin vill semja kántrílög

Justin vill draga sig í hlé frá sviðsljósinu og kanna kántrírætur sínar betur.
Justin vill draga sig í hlé frá sviðsljósinu og kanna kántrírætur sínar betur.

Popparinn Justin Timberlake vill draga sig í hlé frá sviðsljósinu og semja kántrílög í ró og næði. Justin er frá Tennessee þar sem kántríið er í hávegum haft og vill hann kanna þessar kántrírætur sínar betur.

„Ég hef fengið minn skerf af sviðsljósinu. Mér finnst ég ekki þurfa mikið á því að halda núna. Mig langar að semja kántrílög, vegna þess að ég ólst upp við þau í Tennessee. Ég vil samt líka vera áfram í hip hoppinu,“ sagði Justin, sem er 26 ára.

Justin gaf á síðasta ári út sína aðra sólóplötu, Futuresex/Lovesounds, auk þess sem hann talaði inn á teiknimyndina Shrek the Third. Einnig lék hann í sinni fyrstu kvikmynd, Alpha Dog, og var á svipuðum tíma orðaður við leikkonurnar Scarlett Johansson og Jessicu Biel.

„Stundum finnst mér eins og eina leiðin fyrir mig til að tjá allar mínar hliðar sé í gegnum mismunandi fólk. Ef ég á að semja lög fyrir sjálfan mig verð ég tvímælalaust að hlaða batteríin á nýjan leik,“ sagði hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×