Erlent

Kyn fóstra greint eftir sex vikur

sex vikna gamalt fóstur.
Sölufyrirtækið segist geta sagt til um kyn sex vikna fósturs með allt að 98 prósent vissu sé leiðbeiningunum fylgt.
sex vikna gamalt fóstur. Sölufyrirtækið segist geta sagt til um kyn sex vikna fósturs með allt að 98 prósent vissu sé leiðbeiningunum fylgt. MYND/Getty

Hægt er að greina kyn fósturs eftir aðeins sex vikna meðgöngu með nýlegri tækni sem gagnrýnendur segja hafa í för með sér alvarlegar siðferðislegar spurningar.

Prófið, sem kallast „Bleikt eða blátt,“ gengur þannig fyrir sig að kaupandi pantar pakka af netinu sem inniheldur sérstakt kort til að setja blóðdropa úr móðurinni á. Kortið er síðan sent til sölufyrirtækisins sem rannsakar blóðið og sendir niðurstöður til baka nokkrum dögum síðar. Tæknin gengur út á að rannsaka DNA úr fóstrinu sem berst út í blóð móðurinnar. Sé hægt að greina Y-litninga í því er um strák að ræða.

Prófið er ekki markaðssett sem læknifræðislegt heldur út frá upplýsingagildi og fellur þar af leiðandi ekki undir eftirlit heilbrigðisyfirvalda. „Við erum að reyna að brúa bilið milli vísinda og neytenda,“ segir David Nicholson, forstjóri DNA Worldvide sem býður nú upp á þessa þjónustu.

Gagnrýnendur tækninnar hafa áhyggjur af því að slíkar upplýsingar snemma á meðgöngu gætu leitt til þess að foreldrar fari frekar í fóstureyðingu sé fóstrið ekki af því kyni sem þau vildu. Einnig sé þetta skref í áttina að því að einn dag muni foreldrar geta valið eiginleika barns síns.

Einnig hafa sumir vísindamenn lýst yfir efasemdum með áreiðanleika prófsins þar sem óvíst sé að nóg af erfðaefni fóstursins sé í blóði móðurinnar svo snemma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×